Helgi Fannar Sigurðsson, Hrafnkell Freyr Ágústsson og Hörður Snævar Jónsson fóru yfir allt það helsta í Íþróttavikunni á 433.is, en þættirnir koma út vikulega á 433.is.
KR-ingar eru skemmtikraftarnir í Bestu deild karla, eins og sjá mátti í 3-3 jafntefli liðsins við Breiðablik í síðustu umferð.
„Það sem Óskar er að gera fyrir þessa deild er bara ótrúlegt. Hann er með prinsipp sem hann bakkar ekki frá, sama hvað. Úr því verður að fólk sem heldur ekki með KR en hefur gaman að fótbolta mun stilla inn á og mæta á KR-leiki í sumar,“ sagði Hörður í þættinum.
„Að einhverjum hluta þyrftu fleiri að hugsa svona því þetta er sýningarbransi. Allir eru auðvitað í þessu til að vinna en það er miklu skemmtilegra að vinna svona.“
Hörður telur að það muni taka tíma en að lokum muni Óskar vinna titil með KR.
„Eins og með Breiðablik mun hann brenna skipin núna, en svo byggir hann 1-2 skip til að vinna á og ná árangri. Hann veit það sennilega í dag að hann vinnur ekki með þetta lið.“