,,Þetta kemur nokkuð óvænt til, þeir höfðu bara samband í síðustu viku,“ sagði Mikael Nikulásson, nýr þjálfari Njarðvíkur í samtali við 433.is í kvöld.
Mikael þekkja flestir úr sérfræðinga stólnum, þar hefur hann notið mikilla vinsælda í starfi. Njarðvík féll úr 1. deildinni í sumar og leitaði til Mikaels, sem var strax spenntur.
,,Ég var ekkert á leið í þjálfun, þeir vildu prufa eitthvað nýtt, eitthvað ferskt. Eftir að hafa hugsað þetta, þá ákvað ég að slá til.“
Talsvert er síðan að Mikael þjálfaði síðast, hann er spenntur fyrir þvi að fara út á völl aftur. ,,Það er áskorun fyrir mig og þá, þeir eru að taka áhættu. Ég held að þetta eigi eftir að ganga vel, maður veit eitthvað um fótbolta þó að maður hafi ekki verið að þjálfa í tíu ár.“
,,Ég sakna þess á sumrin að þjálfa ekki, ég hef ekkert saknað þess á veturna með tíu menn á æfingu stundum, eins og hjá ÍH. Í Risanum, í 17 stiga frosti. Ég viðurkenni það. Á sumrin hef ég saknað þess oft, sumrin eru skemmtilegri þegar maður er tengdur fótboltanum. Frábær aðstaða Njarðvíkur hafði áhrif á að ég tók þetta, eru með æfingar á fínum tíma í Reykjaneshöllinni á veturna. Frábæra grasvelli, bestu aðstöðu á landinu myndi ég segja.“
Margir hafa velt því fyrir sér hvort Mikael hætti sem sérfræðingur í Dr. Football, svo er ekki. ,,Eins og staðan er verð ég áfram þar. Þetta er skemmtiþáttur, ég er þar til að skemmta mér og öðrum. Það hefur gengið ágætlega.“
Viðtalið við Mikael er í heild hér að neðan.