Því er haldið fram í spænskum miðlum í dag að Newcastle sé að undirbúa rosalegt tilboð í Fermin Lopez, sóknarmiðjumann Barcelona.
Það er nóg að gera á skrifstofu Newcastle. Félagið er að landa Nick Woltemade, sóknarmann Stuttgart, á meira en 70 milljónir punda. Þá er stjörnuframherji liðsins, Alexander Isak, að reyna að komast til Liverpool.
Því er þó hent fram í dag að Newcastle vilji einnig Lopez, sem hefur verið orðaður við enska boltann undanfarið, þá aðallega Chelsea.
Newcastle ku vera að undirbúa 86 milljóna punda tilboð og er þá til í að fjórfalda laun leikmannsins, sem er með 70 þúsund pund á viku í Katalóníu.
Þess 22 ára gamli leikmaður hefur skorað 19 mörk í 89 leikjum fyrir aðallið Börsunga, síðan hann kom úr unglingastarfinu árið 2023.