Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, telur ekki tímabært að skoða kynjakvóta í stjórn KSÍ en það sé þó eitthvað sem má ræða til að skoða hlutina.
Þrjár reyndar konur létu af störfum á ársþingi KSÍ fyrir rúmri viku en enginn kona var í framboði.
Vanda Sigurgeirsdóttir sem var forveri Þorvaldar í starfi hefur látið hafa eftir sér að kynjakvóti sé málið fyrir stjórn sambandsins.
„Mér finnst þetta ekkert snúast bara um að þær séu inni í stjórn, við þurfum að horfa alls staðar frá og það er auðvitað hlutverk sambandsins í samvinnu við öll félögin í landinu, það er að segja hreyfinguna. Að við opnum allt upp og skoðum þessi mál og ýtum þessu úr farvegi. Vonandi á næstu þingum þá munum við fá stærra hlutfall af konum inn,“ segir Þorvaldur við RÚV.
En um kynjakvóta segir Þorvaldur þetta.
„Nei, ekki alveg strax en mér finnst allt í lagi að skoða alla hluti. Það er aldrei neikvætt að velta fyrir sér hlutum. Mér skilst að það hafi gert ágæta hluti í Svíþjóð. Þannig að ef aðrir hafa reynslu af einhverju sem gengur upp af hverju ekki að skoða það? Ég sé ekkert því til fyrirstöðu.“