

Knattspyrnudeild KA barst í dag ansi góður liðsstyrkur fyrir komandi sumar þegar Jeppe Pedersen skrifaði undir tveggja ára samning hjá félaginu.
Jeppe sem kemur í KA frá Vestra átti heldur betur eftirminnilegt sumar fyrir vestan en hann var lykilmaður í liðinu sem hampaði Bikarmeistaratitlinum og gerði meðal annars sigurmarkið í úrslitaleiknum gegn Val með stórkostlegu skoti fyrir utan teig.
Jeppe lék 26 leiki af 27 leikjum Vestra í Bestudeildinni í sumar en hann gekk í raðir liðsins um mitt sumar 2024 og átti stóran þátt í að Vestri hélt sæti sínu í Bestudeildinni það sumarið.
Jeppe sem er 24 ára gamall danskur miðjumaður er uppalinn hjá Álaborg í Danmörku og lék á sínum tíma 32 leiki fyrir yngri landslið Dana. Fyrir komu hans í Vestra lék hann nokkra leiki með sterku liði Álaborgar auk þess að leika á láni hjá dönsku liðunum Skive, Vensyssel og Kolding.