
Starfsfólk Manchester United var undrandi á framkomu Ruben Amorim þegar hann yfirgaf æfingasvæði félagsins í Carrington í síðasta sinn.
Amorim var rekinn frá United í gær eftir dapurt gengi í starfi og ósætti við yfir menn sína.
Samkvæmt Daily Mail vakti framkoma Portúgalans athygli þegar hann kvaddi. Starfsmenn Carrington áttu ekki von á því að sjá Amorim og þjálfarateymi hans hlæjandi og í góðu skapi þegar þeir yfirgáfu æfingasvæðið, en svo varð raunin. Blaðið segir að það hafi klárlega mátt sjá að Amorim og hans mönnum væri létt.
Amorim stýrði United alls í 63 leikjum og náði 24 sigrum, gerði 18 jafntefli og tapaði 21 leik.
Darren Fletcher mun stýra liðinu til bráðabirgða gegn Burnley á miðvikudag, á meðan félagið leitar að nýjum knattspyrnustjóra.