
Marcus Rashford er aftur kominn í umræðuna í kjölfar þess að Manchester United ákvað að láta Ruben Amorim fara frá félaginu í gær.
Rashford, sem er 28 ára, fór á lán til Barcelona síðasta sumar eftir að hafa misst sæti sitt hjá United undir stjórn Amorim. Í La Liga hefur Englendingurinn fundið taktinn á ný og skorað sjö mörk auk þess að leggja upp 11 í 25 leikjum í öllum keppnum fyrir lið Hansi Flick.
Með brottför Amorim hefur framtíð Rashford á Old Trafford aftur orðið að umtalsefni. Fyrrum miðjumaður United, Owen Hargreaves, telur að Rashford eigi enn framtíð hjá félaginu.
„Ég vona að Marcus komi aftur því hann er sérstakur leikmaður. Ég veit ekki hvað gerðist á milli hans og Amorim, en hæfileikar hans eru augljóslega til staðar,“ segir Hargreaves.
Hargreaves telur að Rashford gæti nýst United vel á ný, sérstaklega ef liðið snýr aftur í fjögurra manna varnarlínu. „Marcus er ótrúlegur leikmaður og félagið gæti klárlega notað hann,“ sagði hann.