

Ægir Þór Sævarsson, 14 ára, fékk áritaða Odds BK treyju frá Hinriki Harðarsyni, í gær. Hinrik gekk til liðs við félagið, sem er elsta knattspyrnufélag Noregs, í mars í fyrra.
Treyjan er tuttugasta og sjötta treyjan úr góðgerðarverkefninu Gleðjum saman sem Orri Rafn Harðarson hefur verið að vinna í með leikmönnum.

„Ægir Þór Sævarsson er 14 ára strákur frá Höfn í Hornafirði en er í dag búsettur í Bandaríkjunum til að hjálpa honum að berjast við þann sjúkdóm sem hefur einkennt hans lífs. Ægir er með Duchenne vöðvarýrnun sem er sjaldgæfur ólæknandi vöðvarýrnunar sjúkdómur.
Ægir hefur verið virkur ásamt móðir sinni á að vekja athygli og vitund á sjúkdómnum og um leið fræða fólk um hann á skapandi og skemmtilegan hátt í gegnum dans á allskonar samfélagsmiðlum.
Ægir er mikil áhugamaður um íþróttir og þá sérstaklega fótbolta en er fyrst og fremst kærleiksríkur og algjör stemningsmaður.
Það sem einkennir hann er hversu mikið hann vil gefa til baka og hjálpa öðrum þrátt fyrir þær erfiðu hindranir sem hann þarf að takast á við í daglegu lífi. Þannig einstaklinga viljum við gera hátt undir höfði
Ég vil hvetja fólk til að kynna sér það starf sem að Duchenne samtakana á íslandi og styrkja þau í leiðinni,“
segir Orri Rafn í færslu sinni um afhendingu treyjunnar.
Hulda Björk Svansdóttir, móðir Ægis Þórs, segir dásamlegt að byrja nýja árið með þessu.
„Kærleikurinn heldur áfram að fylla líf okkar. Það var alveg frábært að hitta Hinrik Harðarson. Þvílíkur eðal drengur þar á ferð, einlægur með meiru og með risastórt hjarta. Ægir eignaðist enn einn góðan vin í dag og fékk þessa stórglæsilegu treyju í þokkabót.
Ægir var tilnefndur í þetta fallega verkefni Gefum saman sem Orri Rafn Sigurðarson er með. Hann er alger gullmoli líka og við erum honum eilíflega þakklát fyrir þetta fallega framtak. Þetta er verkefni sem miðar að því að gleðja langveik börn og börn sem hafa gengið í gegnum erfiðleika í lífinu, hvunndagshetjur. Virkilega fallegt verkefni sem ég hvet ykkur að skoða og deila sem víðast.
Það er endalaust verið að setja svona fallegt fólk inn í líf okkar. Manni finnst ósköp fátæklegt að geta bara sagt takk fyrir svona góðverk en af öllu hjarta takk kærlega fyrir okkur.“
Ægir Þórs vakti athygli langt út fyrir landsteinana þegar hann hitti átrúnaðargoð sitt, Lionel Messi.
Sjá einnig: Draumur Ægis rættist þegar hann hitti átrúnaðargoð sitt – „Lífið verður ekki mikið betra en þetta“