

Pétur Marteinsson, fyrrverandi knattspyrnumaður og frambjóðandi til oddivitasætis Samfylkingarinnar í borginni, líkir Degi B. Eggertssyni, fyrrum borgarstjóra, við Sir Alex Ferguson, goðsögn Manchester United, í viðtali við mbl.is í dag.
Þetta sagði Pétur er hann ræddi tíð Heiðu Bjargar Hilmisdóttur í borgarstjórastólnum.
„Ég verð að taka það fram að mér finnst Heiða hafa staðið sig vel í erfiðri stöðu, Dagur var kóngur í borginni í tólf ár og svo tekur Einar Þorsteinsson við og það fór eins og það fór. Heiða tók við meirihlutanum á síðasta ári og mér finnst hún hafa staðið sig vel en núna fyrir kosningarnar í vor mun hún þurfa að verja ýmislegt sem hefur gengið illa og það er alltaf erfitt að taka við eftir Alex Ferguson, það hefur sýnt sig. Ef hún sigrar í prófkjörinu núna held ég að hún komi sterkari til leiks,“ segir Pétur við mbl.is.

Þetta hefur vakið nokkra athygli og skrifaði Stefán Pálsson sagnfræðingur skemmtilega færslu á X í kjölfarið. „Ókey, svo Dagur Bé er Ferguson og Heiða er væntanlega Moyes. …svo Pétur sér sjálfan sig þá sem van Gaal?“ sagði þar.
David Moyes tók við sem stjóri United eftir ótrúlega áratugi undir stjórn Ferguson, en stóð engan veginn undir væntingum. Louis van Gaal tók við í kjölfarið, en tókst ekki að snúa genginu almennilega við.
Þess má geta að Pétur átti frábæran knattspyrnuferil, lék í Svíþjóð, Noregi og á Englandi. Hann á þá að baki 36 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.
https://t.co/OqfgIcTu0L – Ókey, svo Dagur Bé er Ferguson og Heiða er væntanlega Moyes. …svo Pétur sér sjálfan sig þá sem van Gaal?
— Stefán Pálsson (@Stebbip) January 5, 2026