
Ruben Amorim mun fá háa upphæð greidda eftir að Manchester United rak hann úr starfi í dag.
Portúgalski knattspyrnustjórinn var látinn fara í morgun, eftir 1-1 jafntefli gegn Leeds í gær. Brottreksturinn kom í kjölfar vaxandi spennu milli Amorim og stjórnar félagsins.
Samkvæmt The Athletic var ákvörðunin tekin af stjórnendum United, þar á meðal framkvæmdastjóranum Omar Berrada og íþróttastjóranum Jason Wilcox, eftir að sambandið hafði rofnað milli aðila.
Amorim kom til United frá Sporting í nóvember 2024 og skrifaði undir samning til ársins 2027, með möguleika á framlengingu.
Laun Amorim voru um 125 þúsund pund á viku og þar sem 77 vikur eru eftir af samningi Amorim er talið að hann fái greiddar um 9,6 milljónir punda. Fimm aðstoðarmenn hans gætu einnig fengið bætur.
Darren Fletcher mun stýra United í næsta leik gegn Burnley.