
Celtic er búið að reka knattspyrnustjórann Wilfried Nancy eftir erfitt tímabil, en 3-1 tap gegn Rangers á laugardag var hans sjötta í átta leikjum.
Nancy, sem er 48 ára, tók við Celtic 4. desember. Hann kom frá Columbus Crew í MLS þar sem hann hafði náð góðum árangri. Tíminn í Skotlandi reyndist þó erfiður.
Nancy varð fyrsti knattspyrnustjóri Celtic til að tapa fyrstu tveimur leikjum sínum í starfi. Náði hann aldrei að snúa genginu við.
Samhliða brottför Nancy hefur Celtic einnig látið Paul Tisdale, yfirmann knattspyrnumála, fara, auk þess sem aðstoðarþjálfarar Nancy yfirgefa félagið.