
Stjórn Manchester United var óánægð með gagnrýni Ruben Amorim á leikmenn akademíu félagsins og leikmann í aðalliði, Patrick Dorgu, sem og viðbrögð hans þegar honum var veitt endurgjöf. The Sun fjallar um málið.
Amorim var rekinn frá United í morgun eftir 14 mánuði í starfi. Samkvæmt The Sun töldu yfirmenn hjá félaginu að tilfinningar væru æ meira farnar að ráða för hjá honum og á Portúgalinn þá að hafa tekið illa í gagnrýni.
Sérstök óánægja var með 1-1 jafnteflið gegn Wolves á Old Trafford, þar sem Amorim fór aftur í sitt uppáhaldskerfi, 3-4-2-1, þrátt fyrir að United hefði unnið Newcastle með fjögurra manna varnarlínu nokkrum dögum fyrr.
Gagnrýni Amorim á ungu leikmennina Harry Amass og Chido Obi fór einnig illa í stjórn félagsins. Amorim sagði Amass vera í vandræðum á láni hjá Sheffield Wednesday og benti á að Obi væri ekki fastamaður í U21-liðinu. Hann hélt því síðar fram að menningin innan akademíunnar væri eins og allir ættu rétt á öllu.
Ummæli hans um Patrick Dorgu í nóvember vöktu einnig mikla óánægju. Dorgu voru fyrstu kaup INEOS, nýrra eigenda félagsins. Sagði Amorim að það væri eins og Dorgu væri stressaður í hvert einasta skipti sem hann fengi boltann.
United vildi byggja traustar stoðir á sveigjanlegum leikstíl, en tók Amorim illa í ábendingar manna á bak við tjöldin. Að lokum töldu yfirmenn að aðferðir hans hentuðu ekki og er hann því farinn.