

Starf Edu hjá Nottingham Forest ku vera í hættu aðeins mánuðum eftir að hann var ráðinn inn sem yfirmaður knattspyrnumála.
Þetta kemur fram í frétt Telegraph en eigandi Forest, Evangelos Marinakis, er ekki ánægður með störf þess brasilíska.
Edu var áður í sama starfi hjá Arsenal en Forest gerði mikið til að fá hann inn og borgar honum um þrjár milljónir punda á ári.
Eigandinn, Marinakis, er engum líkur en hann er sagður vera mjög óánægður með störf Edu og það sem hann hefur gert á markaðnum og þá hans samskipti við bæði hann og þjálfara liðsins.
Sean Dyche er í dag stjóri Forest en hann er þriðji þjálfari liðsins á tímabilinu á eftir að Nuno Esperito Santo var rekinn og seinna meir Ange Postecoglou.
Góðar líkur eru á að Edu muni fá sparkið á næstu dögum en Grikkinn geðþekki hikar ekki við að taka í gikkinn ef hann er ósáttur með sitt starfsfólk.