Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá París
Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari kom inn á það á dögunum að hann botnaði ekki í því hversu heilagt væri í fótboltanum almennt að skipta ekki um markvörð milli leikja, líkt og í öðrum stöðum.
Stefán Árni Pálsson, íþróttafréttamaður á Sýn, kom inn á þetta í samtali við 433.is hér í Frakklandi, þar sem hitað var upp fyrir leik Íslands við heimamenn í kvöld.
Aðspurður hvort að hann sæi fram á óvæntar breytingar á byrjunarliði Arnars í kvöld sagði hann: „Arnar hefur eitthvað verið að teasa með markmannsstöðuna, að hann skipti jafnvel um markmann og verði með Hákon. En mér finnst það ekki líklegt.“
Elías Rafn Ólafsson kom inn í markið í síðasta leik gegn Aserbaísjan, sem vannst 5-0. Hákon Rafn Valdimarsson hefur annars átt stöðuna undanfarna landsliðsglugga.
„Það er spurning hvort Mikael Egill verði áfram inni, eða hvort hann breyti eitthvað varnaruppstillingunni. Ég sé ekkert annað í þessu þannig,“ sagði hann enn fremur um hugsanlega liðsuppstillingu Arnars í kvöld.
Nánar er rætt við Stefán Árna í spilaranum hér ofar.