Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá París
„Stemningin er flott í hópnum. Við erum fullir tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni og halda áfram að byggja ofan á síðasta leik,“ segir Stefán Teitur Þórðarson landsliðsmaður fyrir leikinn við Frakka annað kvöld.
Ísland vann 5-0 sigur á Aserbaísjan í fyrsta leik undankeppni HM sem nú stendur yfir. Þessi leikur verður allt annars eðlis.
„Það verður miklu meiri varnarleikur, við neðar á vellinum og keyrum á skyndisóknum. En við förum í okkar strúktur sem við þekkjum frá Arnari. Vonandi náum við góðum spilköflum líka og verðum ekki bara niðri í 90 mínútur, þá taparðu.
Þetta verður bara geggjað, vonandi getum við fengið eitthvað út úr þessu og þaggað niður í vellinum,“ segir Stefán enn fremur, en Parc des Princes verður fullur á morgun.