Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá París
Það var vægast sagt umdeilt þegar Ísak Bergmann Jóhannesson tók skrefið frá Dusseldorf yfir til nágrannanna og erkifjendanna í Köln í sumar. Stuðningsmenn fyrrnefnda félagsins hafa enn ekki fyrirgefið honum.
Ísak var spurður út í skiptin í samtali við 433.is í París, en þar er hann með íslenska landsliðinu sem mætir því franska í undankeppni HM annað kvöld. Fyrst og fremst er hann sáttur hjá Köln, sem komst upp í þýsku efstu deildina í vor. Þar vildi Ísak einmitt spila, en Dusseldorf er í B-deildinni.
„Við erum að spila mjög góðan fótbolta með góðan þjálfara sem ég læri líka mikið af. Við spilum svolítið svipað kerfi og hér í landsliðinu, 3-4-3 og 4-4-2 útfærsla. Mér líður mjög vel,“ sagði Ísak, sem hefur byrjað báða deildarleiki Kölnar til þessa.
Þá var Ísak spurður út í skilaboð og þess háttar sem hann hefur fengið frá stuðningsmönnum Dusseldorf. „Já og geri enn, það er bara eins og það er. Ég læt það ekkert trufla mig, eins og sést inni á vellinum.“
Umræða um þetta er í spilaranum hér neðar og viðtalið í heild má finna hér.