Ali Koc, forseti tyrkneska stórliðsins Fenerbahce, hefur nú í fyrsta sinn rætt opinberlega um ástæður þess að José Mourinho var rekinn frá félaginu 29. ágúst síðastliðinn, rétt rúmu ári eftir að hann tók við liðinu.
Mourinho, sem kom til liðsins með miklar væntingar, var látinn fara í kjölfar þess að liðið tapaði gegn Benfica í forkeppni Meistaradeildarinnar. En samkvæmt Koc voru það ekki aðeins úrslitin sem réðu för, heldur hvernig liðið spilaði undir stjórn hins portúgalska þjálfara.
„Af hverju létum við Mourinho fara? Þetta var erfiður skilnaður,“ sagði Koc í viðtali við tyrkneska miðilinn Hurriyet.
„Sambandið okkar á milli var frábær og það eitt og sér að fá hann til félagsins var stór sigur. En við þurftum að spila betri fótbolta, að skora 99 mörk og ná í 99 stig er hluti af okkar DNA.“
Hann bætti við: „Að detta út gegn Benfica var ekki vandamálið í sjálfu sér. En hvernig við duttum út var óásættanlegt. Það virtist sem sama leiðinlega og varkára spilamennskan frá síðasta tímabili væri að halda áfram.“
Á tíma sínum hjá Fenerbahce stýrði Mourinho liðinu í 62 leikjum, vann 37 þeirra, gerði 14 jafntefli og tapaði 11 leikjum. Hins vegar tókst honum ekki að landa neinum titli á meðan hann var við stjórnvölinn.