Stjörnumenn hafa verið mikið gagnrýndir undanfarna daga fyrir skort á gestrisni þegar félög koma í heimsókn. Þetta var til umræðu í Íþróttavikunni á 433.is.
Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, fór mikinn í viðtölum eftir leik við Stjörnuna á dögunum og kvaðst þreyttur á að liðið skila leikskýrslum ítrekað inn seint, Stjörnumenn sprautuðu vatni yfir varamannabekk andstæðinga og fleira.
„Þetta er svo ótrúlega skrýtið. Þú getur náð forskoti í fótbolta með milljón leiðum en þetta er svo furðulegt. Þetta er ekki eitthvað sem þú heyrir um annars staðar,“ sagði Jóhann Páll Ástvaldsson íþróttafréttamaður á RÚV í Íþróttavikunni.
„Stjarnan lítur á sig sem eitt af stóru félögunum á Íslandi og er að gera þetta, sleppið þessu bara. Mér finnst góð lausn að þú fáir ekki að sjá skýrslu fyrr en þú ert búinn að skila þinni skýrslu,“ sagði hann enn fremur.
Hann var við störf fyrir RÚV á Samsungvellinum fyrr í sumar þegar starfsmenn Stjörnunnar firtust sprauta vatni yfir varamannabekk andstæðingsins.
„Ég var nú að taka viðtöl á leik Stjörnunnar og Njarðvíkingum í sumar. Þar var mikið vesen því það var verið að sprauta vatni á varamannabekkinn og allt tökusvæðið. Við skildum ekkert í þessu, en þetta er greinilega systematískt.“