Daninn Thomas Gravesen var magnaður karakter innan vallar sem utan. The Upshot reifaði feril hans og tók fyrir nokkrar góðar sögur.
Á tíunda áratugnum var Gravesen farinn að vekja athygli með Vejle í heimalandinu. Hann fékk að vísu sex mánaða bann á einum tímapunkti fyrir skelfilega tæklingu á liðsfélaga. Það breytti því hins vegar ekki að Gravesen fékk skipti til þýska stórliðsins Hamburg.
Þar gerði kappinn ýmislegt af sér og mætti meðal annars með flugelda á æfingu í eitt skiptið og kveikti í þeim á æfingasvæðinu. Gravesen var mikið fyrir svona athæfi því hann mætti einu sinni með paintball byssu á æfingu Everton síðar á ferlinum og hóf að skjóta á liðsfélaga.
Gravesen fór einnig illa með liðfélaga sína í danska landsliðinu. Hann setti ísmola í stuttbuxur Jesper Grønkjær á HM 2002. Ári síðar danglaði hann lim sínum í andlitið á Claus Jensen sem lá í sakleysi sínu í grasinu.
Síðar mætti Gravesen Íslandi með danska landsliðinu. Hann fór á kostum er Danmörk vann 6-0. Mike Tyson var staddur í Kaupmannahöfn og var heillaður af frammistöðum Gravesen. Hann fékk treyjuna hans og var í henni á meðan hann dvaldi í dönsku höfuðborginni.
Árið 2005 fór Gravesen afar óvænt í stjörnum prýtt lið Real Madrid. Þar lét hann stjörnur á borð við Ronaldo, Figo og Zinedine Zidane ekki komast upp með neitt múður. Hann stríddi þeim og tók í þá reglulega.
Á þessum tíma var Gravesen með dönsku klámstjörnunni Kira Eggerts. Þegar liðsfélagar báðu hann um myndir sagði kappinn: „Gúgglaðu hana bara, það er nóg af myndum þar.“
Gravesen var þó síðar ekki í náðinni hjá Real Madrid og fór til Celtic. Þar lenti hann í útistöðum við agaða stjórann Gordon Strachan. Eru sögur af því þegar Gravesen hélt dagblaði fyrir andlitinu á sér á meðan Strachan hélt liðsfund. Var Daninn búinn að búa til göt fyrir augun í sér.
Gravesen lagði skóna á hilluna aðeins 32 ára gamall og eyddi eftir það miklum tíma í Las Vegas. Kappinn er 47 ára gamall í dag.