Það er óhætt að segja að allt sé á suðupunkti í knattspyrnuheiminum í Aserbaísjan og er kallað eftir höfði landsliðsþjálfarans eftir stórt tap gegn Íslandi í Laugardalnum í gær.
Liðin mættust í fyrsta leik í undankeppni HM og vann Ísland 5-0. Aserbaísjan hefur nú ekki unnið í 13 leikjum undir stjórn reynsluboltans Fernando Santos.
Santos, sem gerði portúgalska landsliðið að Evrópumeistara 2016, var spurður út í framtíð sína á blaðamannafundi eftir leik.
„Ég er með gildan samning hér, af hverju ætti ég að hætta? Ef sambandið vill reka mig þá rekur það mig,“ svaraði hann einfaldlega.
Fyrirliðinn Emin Mahmudov var niðurlútur eftir leik. „Við ætluðum okkur meira. Það er ekki meira um það að segja. Við spiluðum illa og ekkert virkaði. Ég vil bara biðja stuðningsmenn afsökunar.“
Næsti leikur Íslands er ytra gegn Frökkum á þriðjudag. Aserbaídsjan mætir Úkraínu á sama tíma.