Íslenska karlalandsliðið hefur leik í undankeppni HM í kvöld er það tekur á móti Aserbaísjan í Laugardalnum. Strákarnir okkar eru taldir mun sigurstranglegri en þurfa þó að eiga góðan leik til að vinna.
„Þetta er lið sem er ekki búið að vinna lengi en er með fullt af leikmönnum að spila á alvöru stöðum. Við munum þurfa að hafa fyrir þessu en setjum kröfur á að vinna þennan leik,“ sagði Jón Dagur Þorsteinsson landsliðsmaður um andstæðing kvöldsins.
Hann var spurður að því hvort það mætti tala um skyldusigur Íslands í kvöld. „Ef við ætlum að gera eitthvað í þessum riðli þurfum við að vinna þennan leik. Skyldusigur eða ekki, þú mátt kalla þetta það sem þú vilt,“ svaraði hann þá, léttur í bragði.
Sem fyrr segir er leikurinn gegn Aserbaísjan sá fyrsti í undanriðlinum. Strákarnir fá svo öllu erfiðara verkefni gegn Frökkum ytra í leik tvö á þriðjudag. Mikilvægt að taka gott veganesti með sér til Parísar.
Ítarlegra viðtal við Jón Dag er í spilaranum hér ofar.