Það er óljóst hvort Albert Guðmundsson verði með íslenska landsliðinu gegn Frakklandi í öðrum leik undankeppni HM á þriðjudag.
Albert skoraði og lagði upp í 5-0 sigri á Aserbaísjan í kvöld en virtist meiðast er hann skoraði markið. Arnar Gunnlaugsson var spurður út í þetta í viðtali við Sýn eftir leik.
„Það á eftir að meta það en hann sneri sig eitthvað aðeins á ökkla. Við tökum núna næstu daga í að meta hvort hann verði klár á þriðjudaginn.
En gaman fyrir hann að skora mark, ég heimtaði mark frá honum í þessum leik og hann er líka kominn með fullt af stoðsendingum sem spyrnumaðurinn okkar í föstum leikatriðum. Þannig að vonandi náum við honum góðum,“ sagði Arnar.