Hákon Arnar Haraldsson mun bera fyrirliðabandið hjá íslenska landsliðinu í fjarveru Orra Steins Óskarssonar í komandi leikjum í undankeppni HM. Hann kemur fullur sjálfstrausts inn í leikina eftir góða byrjun á tímabilinu með stórliði Lille í Frakklandi.
Hákon er á sínu þriðja tímabili með stórliði Lille. Hefur hann skorað tvö mörk í fyrstu þremur umferðum frönsku úrvalsdeildarinnar og er lykilmaður hjá sínu liði.
„Það hefur byrjað mjög vel hjá mér og liðinu. Ég er búinn að skora óvenju mikið svo ég er mjög spenntur og klár í slaginn,“ sagði Hákon á blaðamannafundi fyrir leik Íslands gegn Aserbaísjan á morgun.
„Þú átt eftir að skora fyrir mig,“ skaut Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari þá inn í og uppskar hlátur í salnum. „Það kemur á morgun,“ lofaði Hákon þá.
Ísland mætir sem fyrr segir Aserbaísjan á morgun og fer sá leikur fram hér heima. Liðið heimsækir svo Frakka í leik númer tvö á þriðjudag. Má búast við að hann verði öllu erfiðari.