„Já,“ sagði Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari einfaldlega á blaðamannafundi, aðspurður hvort hann hefði tekið ákvörðun um hver stendur í marki Íslands gegn Aserbaísjan á morgun.
Mikið hefur verið rætt og ritað um það hvort Hákon Rafn Valdimarsson verði í markinu eins og í síðustu leikjum eða Elías Rafn Ólafsson.
„Eins og með allar aðrar stöður skoða ég síðustu landsleiki, hvernig núverandi stand er. Svo endar þetta með gömlu góðu tilfinningunni,“ sagði Arnar einnig á fundinum í dag.
Hann var spurður að því hvort það kæmi til greina að nota sitt hvorn markvörðinn í þeim tveimur leikjum sem fara fram á næstu dögum, gegn Aserbaísjan og Frakklandi.
„Ég skil ekki með þessa markvarðastöðu, þetta er eitthvað svo heilagt. Í fullkomnum heimi ertu auðvitað með stabílan markmann en andskotinn hafi það, það má alveg hrista upp í þessu ef tilgangurinn er réttur,“ sagði Arnar þá léttur.
„Okkar landsliði hefur gengið best þegar það er ákveðinn kjarni svo sá sem er að spila vel heldur væntanlega bara stöðunni.“
Hákon er varamarkvörður Brentford í ensku úrvalsdeildinni en Elías er aftur orðinn aðalmarkvörður Midtjylland í Danmörku.