Wayne Rooney segir að það særi hann að sjá Manchester United í þeirri stöðu sem félagið er í í dag.
Rooney, sem er markahæsti leikmaður í sögu félagsins, á sjálfur tvo syni í akademíu United og viðurkennir að hann þrái ekkert meira en að sjá þá alast upp í sigursælu félagi. Rooney vann allt sem hægt er að vinna með United, þar á meðal fimm Englandsmeistaratitla.
„Ég þekki ekki þetta félag lengur. Það er engin karakter, engin löngun til að vinna. Settu Roy Keane inn í þennan klefa, settu Paul Scholes inn í þennan klefa, þeir myndu sýna hvað félagið stendur fyrir,“ sagði Rooney.
United er í 14. sæti deildarinnar eftir 3-1 tap gegn Brentford um síðustu helgi undir stjórn Rubens Amorim.
Rooney segir að sársaukafyllsti punkturinn sé að börnin hans hafi aldrei upplifað United á toppnum. Eldri sonurinn, Kai, er 15 ára og hefur verið í akademíunni síðan 2020 en yngri bróðir hans, Klay, er 12 ára og einnig í yngri flokkunum hjá United.
„Ég ólst upp sem Everton-maður, ekki United-maður. En ég eyddi svo miklum tíma hjá þessu félagi að fjölskyldan mín og börnin mín eru orðin tengd því. Það sem við sjáum núna særir,“ sagði Rooney.
„Aðeins elsti sonur minn hefur séð Manchester United vinna ensku úrvalsdeildina. Hinir vita ekki hvernig það er þegar félagið er árangursríkt. Ég vil að þau upplifi það.“
Rooney benti einnig á að menningin á Old Trafford hafi breyst til hins verra. „Ég sé starfsmenn missa vinnuna, fólk hætta. Þetta er ekki Manchester United.“
United tekur á móti Sunderland á Old Trafford á laugardag og þarf á sigri að halda til að reyna að rétta sinn hlut.