Fyrrverandi miðjumaður Liverpool og Tottenham, Danny Murphy, hefur opinberað að hann hafi tapað allt að fimm milljónum punda vegna fjárfestinga sem hann gerði á ferlinum, fjárfestinga sem hann lýsir nú sem „fjárhagslegu ofbeldi“.
Murphy, sem nú starfar sem sérfræðingur í Match of the Day, er einn af ellefu fyrrverandi atvinnumönnum sem stofnuðu samtökin V11, sem snúa að baráttunni gegn fjárhagsmisnotkun sem margir knattspyrnumenn urðu fyrir í gegnum Kingsbridge Asset Management.
Í nýrri heimildarmynd BBC, The Story of the V11, segir Murphy sína sögu og lýsir hvernig röð fjárfestinga í gegnum Kingsbridge leiddi til persónulegra áfalla.
„Ég hef tapað fjórum, mögulega fimm milljónum punda,“ segir Murphy í myndinni.
„Fjárhagslega ofbeldið sem ég hef orðið fyrir hefur valdið mér gífurlegum vandamálum. Það er skömmin, vandræðin og sektarkenndin yfir því að hafa lent í þessari stöðu, stöðu sem maður hélt að maður væri of klár til að lenda í.“
Murphy, sem er 48 ára, er aðeins einn af um það bil 200 knattspyrnumönnum sem urðu fyrir áhrifum af fjárfestingarsvindlinu. Þeirra á meðal eru stór nöfn á borð við Wayne Rooney og Rio Ferdinand.
Þrátt fyrir að hafa verið taldir fórnarlömb svika, eru fyrrverandi leikmenn nú sagðir eiga yfir höfði sér háar skattaálögur vegna fjárfestinganna. Fjárfesting sem þeir voru sannfærðir um að væru lögmætar og öruggar á sínum tíma.