Ráðning Bayer Leverkusen á Erik ten Hag kostaði félagið um 6 milljónir punda í heildina. Þýska blaðið Bild greinir frá.
Þessi fyrrum stjóri Manchester United tók við Leverkusen af Xabi Alonso í byrjun sumars og átti að taka þátt í enduruppbyggingu félagsins, sem missti marga lykilmenn eftir síðustu leiktíð.
Eftir jafntefli og tap í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins í Þýskalandi var Hollendingurinn hins vegar látinn fara. Er hann allt annað en sáttur við það, en hann vildi tíma til að koma sínu handbragði á nýtt lið.
Ten Hag getur þó huggað sig við það að hann þénaði tæpar 5 milljónir evra í laun á tíma sínum í Þýskalandi og rúma milljón evra í skaðabætur fyrir að vera rekinn einnig, en samið var um þá greiðslu þegar hann skrifaði undir.