Nýliðar Leeds og Sunderland í ensku úrvalsdeildinni skoðuðu þann möguleika að sækja Senne Lammens í markið fyrir leiktíðina en ákváðu að aðhafast ekki vegna verðmiðanns og ótta við að hann hefði ekki það sem til þarf í bestu deild heims.
Daily Mail fjallar um þetta, en Lammens var keyptur til Manchester United á lokadegi félagaskiptagluggans í fyrradag. Kom hann frá belgíska félaginu Royal Antwerp á um 22 milljónir punda.
Lammens er 23 ára og hefur spilað fyrir öll unglingalandslið Belga. Hann þykir spennandi markvörður en fannst bæði Leeds og Sunderland of mikil áhætta að borga meira en 20 milljónir punda fyrir hann miðað við hversu óskrifað blað hann er.
United hefur verið í markvarðakrísu undanfarin tímabil. Andre Onana hefur alls ekki heillað undanfarin tvö ár og ekki hefur Altay Bayindir, sem hefur staðið í markinu í upphafi tímabils, heldur þótt gera vel.