Guðlaugur Victor Pálsson landsliðsmaður segir ekkert annað koma til greina en að vinna Aserbaísjan í fyrsta leik undankeppni HM á föstudag.
Ísland er einnig með Frakklandi og Úkraínu í riðli. Markmiðið er að hafna allavega í öðru sæti og fara í umspil um sæti á HM. Til þess þarf að vinna á föstudag.
„Ég er bara mjög vel stemmdur. Það er ekki annað hægt, Laugardalsvöllur er geggjaður, þetta er frábær hópur og það er mikil tilhlökkun. Markmiðin eru skýr. Það er mjög mikilvægt að byrja þetta vel, við verðum að vinna þennan leik, það er bara þannig,“ sagði Guðlaugur Victor við 433.is í dag.
Hann býst við því að það komi í hlut íslenska liðsins að stýra leiknum.
„Ég geri ráð fyrir að við verðum meira með boltann og að þeir liggi svolítið. Við búumst ekki við því að þeir muni reyna að pressa okkur hátt heldur frekar reyna að breika á okkur. Þeir spila í fimma manna vörn og við verðum að vera þolinmóðir í okkar uppspili, senda boltann hratt og vera beinskeyttir í því sem við erum að gera.
Við þurfum bara að vera duglegri en þeir og hlaupa meira. Við erum með betra hugarfar en þeir. Ég ætla að fullyrða það. Við þurfum bara að vera með þetta íslenska viðhorf með og án bolta.“
Ítarlegra viðtal er í spilaranum.