Elías Rafn Ólafsson, landsliðsmarkvörður, er aftur orðinn kostur númer eitt hjá danska stórliðinu Midtjylland. Hann er þar í stöðugri baráttu við Jonas Lössl.
Lössl, sem er 36 ára gamall, á að baki feril í ensku úrvalsdeildinni og Þýskalandi. Hefur hann verið í baráttunni við Elías um stöðu aðalmarkvarðar undanfarin ár.
Elías hóf tímabilið í dönsku úrvalsdeildinni á bekknum en greip gæsina þegar Lössl meiddist. „Hann meiðist eftir þrjá leiki og ég kem inn í þetta,“ segir hann við 433.is.
Elías og Lössl hafa skipts á að slá hvorn annan út í baráttunni um markvarðarstöðuna hjá Midtjylland undanfarin ár. En hvernig er sambandið þeirra á milli?
„Sambandið okkar er fínt, hann er toppgæi. Hann er með mikla reynslu sem maður getur lært af,“ segir Elías.
Midtjylland er taplaust í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar, stigi á eftir meisturunum í FC Kaupmannahöfn þegar sjö umferðum er lokið. Liðið vill endurheimta titilinn sem það vann á þarsíðustu leiktíð.
„Við erum komnir með fullt af nýjum leikmönnum og þetta er mjög spennandi lið sem við erum komnir með. Þetta verður barátta um titilinn.“
Ítarlegra viðtal við Elías um landsleikina sem framundan eru hjá Íslandi og fleira er í spilaranum.