Wayne Rooney, goðsögn Manchester United, var afar harðorður í garð Ruben Amorim, stjóra liðsins, eftir úrslit helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.
United tapaði 3-1 á útivelli gegn Brentford um helgina og situr í 14. sæti deildarinnar. Amorim, sem tók við af Erik ten Hag í nóvember í fyrra, er undir mikilli pressu.
„Þetta er einfaldlega ekki nógu gott, frá stjóranum, þjálfurunum, leikmönnunum, ég veit ekki hvað er í gangi. Þetta er ekki Manchester United. Ég vona að hann snúi þessu við, en miðað við það sem ég hef séð hef ég enga trú á því,“ segir Rooney.
United endaði í 15. sæti á síðasta tímabili og tapaði úrslitaleik Evrópudeildarinnar gegn Tottenham. Þrátt fyrir að hafa varið yfir 200 milljónum punda í sóknarmenn í sumar, þar á meðal Bryan Mbeumo, Matheus Cunha og Benjamin Sesko, hefur gengi liðsins ekki lagast. Liðið féll einnig úr enska deildarbikarnum gegn D-deildarliði Grimsby.
„Ég sé enga baráttu, enga karaktera, enga leikmenn sem geta unnið leiki. Ég fer á völlinn og býst við tapi. Þetta er ekki Manchester United. Það þarf skýra yfirlýsingu frá eigendunum um hvert félagið stefnir,“ segir Rooney enn fremur.
United mætir Sunderland á heimavelli um helgina en á síðan erfiðan leik gegn toppliði Liverpool eftir landsleikjahlé.