Helgi Fannar Sigurðsson og Hörður Snævar Jónsson gerðu upp vikuna og horfðu í framhaldið í Íþróttavikunni á 433.is.
Valur og Breiðablik gerðu 1-1 jafntefli í stórleik í Bestu deild karla á dögunum. Stigið gerði lítið fyrir hvorugt lið, Val í toppbaráttunni og Blika í Evrópubaráttunni.
Hörður hefði viljað sjá Túfa þjálfara Vals byrja með Aron Jóhannsson í leiknum, en hann kom inn af bekknum.
„Það hefur verið í tísku að tala niður Aron Jóhannsson, sem oft á tíðum hefði getað gert meira. En Aron Jóhannsson var búinn að vera frábær eftir að Patrick (Pedersen) datt út, skorað góð mörk,“ sagði Hörður í þættinum.
„Umræðan hefur verið á þann veg að Aron geti ekkert, en eftir að Patrick datt út hefur mér fundist hann mjög góður. Ég hefði viljað sjá Túfa þora að taka sénsinn. Þetta jafntefli var ekki gott fyrir þá.“
Hörður velti því þá upp hvort Valur hafi sætt sig á jafntefli til að halda Blikum frá sér og fara langt með að tryggja Evrópusæti. Það eru þó aðeins 4 stig í Víking í efsta sætinu.
„Mér fannst hann, og kannski er það eðlilegt, setja þennan leik upp þannig að jafntefli myndi slá út Blikana í Evrópubaráttunni. Kannski er það eðlilegt miðað við þau skakkaföll sem hafa orðið.“
Helga finnst ólíklegt að Valsarar horfi þannig á stöðuna. „Ég bara neita að trúa því að menn hugsi þannig, fyrsta sætið er í augsýn,“ sagði hann.
Þátturinn í heild er í spilaranum.