Helgi Fannar Sigurðsson og Hörður Snævar Jónsson gerðu upp vikuna og horfðu í framhaldið í Íþróttavikunni á 433.is.
Bikarmeistarar Vestra eru allt í einu komnir í hörkufallbaráttu eftir að hafa verið við toppinn framan af móti.
„Það er ótrúlegt hvernig umtal um félag getur breyst á skömmum tíma. Maður var farinn að tala um Leicester-ævintýri í vor, þeir verða bikarmeistarar. Fyrr má nú vera helvítis bikar-þynnkan. Svo eru samningamál leikmanna, Davíðs (Smára þjálfara), þetta er allt í einu orðið svolítið súrt,“ sagði Helgi, en margir eru að renna út af samningi.
„Við höfum séð í sumar að pendúllinn getur verið fljótur að snúast. Vestri er líklega einum sigri frá því að bjarga sér og þá er þetta besta sumar í sögu félagsins,“ sagði Hörður en bætti við að það yrði agalegt fyrir félagið að falla.
„Það myndi gera þetta sumar með þessum hápunkti ansi súrt að enda í Lengjudeild og Evrópukeppni, eftir allt sem menn hafa lagt á sig til að komast á þennan stað.“
Þátturinn í heild er í spilaranum.