Erling Braut Haaland verður með Manchester City gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni á morgun.
Pep Guardiola, stjóri City, staðfesti þetta á blaðamannafundi í dag, en óvissa hafði verið um þátttöku norska framherjans í leiknum vegna smávægilegra meiðsla sem hann varð fyrir í jafnteflinu gegn Arsenal um síðustu helgi.
Haaland er kominn með sex mörk í fyrstu fimm umferðum deildarinnar og verða það að teljast góð tíðindi fyrir marga Fantasy-spilara að hann verði með gegn Burnley, einu slakasta liði deildarinnar á pappír, á morgun.