Eigendur Liverpool, Fenway Sports Group (FSG), eru komnir langt í viðræðum um kaup á sínu öðru knattspyrnuliði.
FSG, sem stýrt hefur Liverpool frá árinu 2010 undir forystu John W. Henry, á einnig Boston Red Sox í hafnabolta og Pittsburgh Penguins í íshokkí.
Samkvæmt heimildum Daily Mail er hópurinn nú í lokaviðræðum við spænska La Liga félagið Getafe.
FSG hefur undanfarið unnið markvisst að því að finna félag í Evrópu til kaupa og fengu til liðs við sig Michael Edwards, Julian Ward og Pedro Marques til að leiða þá vinnu.
Franskt lið eins og Toulouse og spænska félagið Malaga voru skoðuð ítarlega ásamt um 20 öðrum klúbbum, en nú virðist sem Getafe, sem er staðsett í Madríd, sé líklegasti kosturinn.
Samkvæmt spænskum miðlum kom Real Madrid að málinu og auðveldaði tenginguna milli FSG og Getafe. Í kjölfarið heimsótti sendinefnd FSG félagið í byrjun ágúst til að kynna sér starfsemi þess nánar og virðist nú samkomulag nálgast.