Carlo Ancelotti, núverandi landsliðsþjálfari Brasilíu, hefur starfað fyrir suma af áhrifamestu mönnum fótboltans en segir engan hafa verið jafn ógnvekjandi og Roman Abramovich, fyrrverandi eiganda Chelsea.
Ancelotti stýrði Chelsea á árunum 2009 til 2011, vann deild og bikar á sínu fyrsta tímabili.
Í nýútkominni ævisögu sinni, The Dream – Winning the Champions League, lýsir Ancelotti hversu mikilli pressu hann upplifði undir stjórn rússneska auðkýfingsins.
„Abramovich lét það skýrt í ljós að hann vildi sjá Chelsea vinna Meistaradeildina og skapa sér sérstakan stíl á vellinum,“ segir Ancelotti í bókinni.
„En nú var ég orðinn þjálfari rússnesks olígarka sem ég skildi skyndilega að gerði kröfu um að allt færi alltaf vel og ef það gerði það ekki, vildi hann vita af hverju. Það var mitt að svara.“
Ancelotti rifjar sérstaklega upp óvænt 3-1 tap gegn Wigan, þar sem hann segist í fyrsta sinn hafa fundið fyrir „skugga sem féll yfir dvölina“ hjá félaginu.
„Morguninn eftir var Abramovich mættur á æfingasvæðið að krefjast svara. Hvað fór úrskeiðis?“
Þrátt fyrir að hafa áður unnið fyrir valdamenn eins og Silvio Berlusconi hjá AC Milan, Florentino Perez hjá Real Madrid og Nasser Al-Khelaifi hjá PSG, segir hann að enginn hafi verið jafn nákvæmur og sífellt til staðar eins og Abramovich.
„Berlusconi var líka krefjandi eigandi. Hann keypti stundum leikmenn sem ég þurfti ekki og vildi að ég lagaði uppstillinguna eftir því,“ segir hann.
„En hann var líka forsætisráðherra Ítalíu svo hann hafði stærri mál að hugsa um. Það var engin smá-stjórn eins og hjá Abramovich.“
Abramovich missti stjórn á Chelsea árið 2022 þegar hann var neyddur til að selja félagið eftir að bresk stjórnvöld settu hann á refsiaðgerðarlista vegna tengsla hans við Vladimir Pútín eftir innrás Rússa í Úkraínu.