William Saliba er við það að skrifa undir nýjan langtímasamning við Arsenal. Þetta kemur fram í virtum miðlum nú í morgunsárið.
Þetta eru miklar gleðifréttir fyrir stuðningsmenn Arsenal. Saliba á minna en tvö ár eftir af samningi sínum við Arsenal og hefur reglulega verið orðaður við Real Madrid.
Nú er ljóst að franski miðvörðurinn, sem er 24 ára gamall, verður áfram hjá Arsenal næstu árin.
Saliba gekk í raðir Arsenal árið 2019 frá St. Etitenne í heimalandinu. Hann var lánaður aftur til St. Etienne, sem og Nice og Marseille fyrstu árin sín hjá félaginu.
Frá 2022 hefur Saliba svo verið algjör lykilmaður við hlið Gabriel í hjarta varnarinnar hjá Arsenal.