Ummæli Magnúsar Orra Schram, formanns knattspyrnudeildar KR, um að það væri ekki það versta í stöðunni að karlalið félagsins myndi falla, hafa verið milli tannanna á fólki undanfarna daga.
KR er í fallbaráttu þegar fjórum umferðum af Bestu deildinni er ólokið. Staða liðsins var rædd í Þungavigtinni í gær. Þar er Mikael Nikulásson, harður KR-ingur.
„Ég er ekki að hlusta á Magnús Schram í eina sekúndu, þó við séum æskufélagar,“ sagði Mikael ómyrkur í máli í þættinum.
Kristján Óli Sigurðsson grínaðist með að þeir væru þó allavega báðir í Samfylkingunni, en Magnús er fyrrum þingmaður flokksins.
„Það kannski sést í mínum orðum í þessum þætti og hans niðri í KR-heimilinu hver er í Samfylkingunni og hver ekki,“ svaraði Mikael þá um hæl.
KR mætir ÍA í hörku fallslag á laugardaginn. Mikael hræðist stöðuna.
„En Magnús Orri Schram stýrir samt ekki liðinu og spilar ekki leikina. Ég er skíthræddur við þetta því varnarleikur KR er sorglegur.“