Mateusz Klich, fyrrverandi miðjumaður Leeds United, hefur varað leikmenn við því að ganga í raðir Inter Miami á meðan Lionel Messi sé þar og sparar ekki stóru orðin.
„Ég myndi ekki mæla með því að fara til Miami á meðan Messi er þarna. Þetta er algjört rugl,“ sagði Klich í viðtali við Foot Truck.
Klich, sem lék 82 leiki í ensku úrvalsdeildinni með Leeds, hefur undanfarið leikið í MLS með liðum á borð við DC United og Atlanta United. Þar segist hann hafa upplifað alvarleg skipulagsvandamál innan Inter Miami.
„Fólk er að yfirgefa félagið, þjálfarar, sjúkraþjálfarar. Skipulagið er ömurlegt. Faðir Messi stjórnar í raun félaginu, ekkert gerist nema með samþykki þeirra. Allir tala spænsku, og völlurinn er 45-50 mínútur frá Miami.“
Lionel Messi gekk til liðs við Inter Miami árið 2023 eftir stórkostlegan feril hjá Barcelona og stutt stopp hjá PSG. Hann hefur skorað 64 mörk og lagt upp 31 í 76 leikjum fyrir liðið.
Þrátt fyrir það leggur Klich áherslu á að aðrir valkostir séu betri fyrir leikmenn sem íhuga að fara til Bandaríkjanna.
„Ég myndi frekar mæla með New York. Red Bull hefur betri leikvang núna og City er að byggja frábæran völl. Nashville er líka frábær staður. Portland og Seattle eru með stemningu en það er eins og að vera við endann á heiminum.“