Það hefur orðið mikið hrun hjá Vestra í kjölfar þess að liðið varð bikarmeistari. Stigusöfnun og markatala frá bikarúrslitaleiknum er ekkert til að hrópa húrra fyrir.
Vestri byrjaði Bestu deildina frábærlega og var í toppbaráttu framan af. Gengið fór svo að dala en aldrei datt nokkrum í hug að liðið gæti sogast niður í hörkufallbaráttu eftir fyrsta hluta mótsins. Annað hefur komið á daginn.
Vestri vann Val 1-0 í úrslitaleik bikarsins fyrir sléttum mánuði síðan og skrifaði þar með söguna. Liðið tryggði þá sæti í undankeppni Evrópudeildarinnar á næstu leiktíð og að minnsta kosti tvö Evrópueinvígi næsta sumar.
Síðan hefur Vestri spilað fjóra leiki, fengið eitt stig og fengið á sig 13 mörk í þeim. Skyndilega er liðið 3 stigum fyrir ofan fallsvæðið þegar fjórar umferðir eru eftir.
Það er magnað að liðið hafi fengið á sig 13 mörk í síðustu fjórum leikjum í ljósi þess að það eru fleiri mörk en liðið fékk á sig allan júní, júlí og ágúst fram að bikarúrslitaleiknum fyrir mánuði síðan, ef frá er talinn 2-1 tapleikur gegn KR 1. júní.
Taldi þetta tímabil 11 leiki og liðið því fengið á sig fleiri mörk eftir bikarúrslitin í næstum þrisvar sinnum færri leikjum en þessa mánuði á undan.
Ljóst er að lærisveinar Davíðs Smára Lamude þurfa að rífa sig í gang ef ekki á illa að fara í haust. Liðið á eftir að mæta ÍBV, KA, Aftureldingu og KR það sem eftir lifir móts. Deildinni hefur auðvitað verið skipt upp.