Noni Madueke mun fara í skoðanir í dag vegna meiðsla á hné sem hann varð fyrir gegn Manchester City.
Enski kantmaðurinn fór af velli í hálfleik í 1-1 jafntefli í gær. Flestir héldu að um taktíska skiptingu Mikel Arteta væri að ræða en svo kom í ljós að hann hefði meiðst.
Nú mun væntanlega koma í ljós bráðlega hvort Madueke sé alvarlega meiddur.
Það yrði mikið högg fyrir Arsenal sem hefur verið að glíma við mikil meiðsli lykilmanna í upphafi tímabils. Bukayo Saka er að snúa aftur eftir meiðsli en Martin Ödegaard og Kai Havertz eru á meðal manna sem eru frá.
Madueke gekk í raðir Arsenal frá Chelsea á rúmar 50 milljónir punda í sumar.