Jóhann Skúli Jónsson, hlaðvarpsstjarna með meiru, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar í Íþróttavikunni á 433.is á föstudag. Þar var farið vel yfir lokasprettinn í Bestu deild karla.
Málefni Íslandsmeistara Breiðabliks hafa mikið verið í umræðunni. Liðið hefur verið í frjálsu falli innan vallar í fleiri vikur og hafa þá borist fréttir um kurr á bak við tjöldin, sér í lagi í tengslum við nýjan samning þjálfarns Halldórs Árnasonar.
Þá hafa leikmenn og stuðningsmenn skotið sín á milli á samfélagsmiðlum og spjallhópum, svo dæmi séu nefnd.
„Mér finnst þetta aðallega leiðinlegt því þeir eru að fara í þessa Sambandsdeild og það er enginn að tala um það í dag, heldur bara hvað allt er ömurlegt þarna,“ sagði Jóhann í þættinum.
Breiðablik er einmitt á leið í Sambandsdeildina í annað sinn á þremur árum.
„Ef hann gerir eitthvað í þessari Sambandsdeild getur það byggt upp eitthvað móment, þeir fengið pening í kassann og fengið leikmenn í vetur. En mér finnst áran yfir þessu það skrýtin að ég sé þetta ekki breytast. Og það hefur ekkert með Dóra að gera heldur bara allt í kringum þetta,“ sagði Jóhann.
Hann telur þó að Halldór verði áfram í starfi á næstu leiktíð.
„Já, ég held það. Þó það sé kurr yfir þessum nýja samningi rekur þú ekki þjálfara sem þú samdir við fyrir mánuði síðan. Ég held að hann fái eitt tímabil. Hann gerði liðið að Íslandsmeisturunum og kannski á hann bara rétt á tækifæri til að rétta þetta af.“
Þátturinn í heild er í spilaranum.