Jason Wilcox, yfirmaður knattspyrnumála hjá Manchester United, hefur sent eigendum félagsins og Sir Jim Ratcliffe skýr skilaboð um að fá meiri tíma til að snúa gengi liðsins við.
Tapið gegn erkifjendunum í Manchester City síðasta sunnudag hefur aukið pressuna á þjálfarann Ruben Amorim, Wilcox sjálfan og forstjórann Omar Berrada.
Ratcliffe heimsótti Carrington á fimmtudag og hélt fundi með lykilfólki innan félagsins þar sem núverandi staða liðsins var meðal annars rædd en liðið situr í 14. sæti úrvalsdeildarinnar eftir aðeins fjóra leiki.
Amorim hefur sjálfur kallað eftir þolinmæði og sagt mikilvægt að taka tillit til meiðsla sem hafi tafið uppbyggingarvinnu hans.
„Ég bið bara til guðs að við fáum tækifæri til að snúa þessu við og fyrir mér er spurningin ekki hvort við vinnum aftur heldur hvenær við gerum það,“ sagði Wilcox.
Hann var viðstaddur hátíðarkvöldverð í tilefni 40 ára afmælis samtaka fyrrverandi leikmanna Manchester United þar sem hann lýsti stöðunni innan félagsins:
„Þetta hefur verið algjör rússíbani! Ég kom inn í apríl á síðasta ári, fyrir um það bil 18 mánuðum, og þetta hefur verið mikil áskorun, ég skal ekki ljúga að ykkur.