Erik ten Hag hefur rofið þögnina eftir að hafa verið óvænt rekinn úr starfi hjá Bayer Leverkusen eftir þrja´leiki í starfi. Um er að ræða hraðasta brottrekstur þjálfara í sögu þýsku úrvalsdeildarinnar.
Ten Hag, sem var ráðinn í maí sem arftaki Xabi Alonso til tveggja ára, var látinn fara í gær. Hollendingurinn segist vera í áfalli yfir ákvörðun félagsins. Ten Hag var rekinn frá Manchester United í nóvember á síðasta ári.
Leverkusen gerði 3-3 jafntefli við Werder Bremen um helgina, eftir að hafa misst niður tveggja marka forystu gegn 10 mönnum og fengið á sig jöfnunarmark á 94. mínútu. Þetta var annar deildarleikur liðsins undir stjórn Ten Hag, en fyrsti heimaleikurinn fór 1-2 gegn Hoffenheim í opnunarleik tímabilsins. Viku áður höfðu þeir unnið fjórðu deildar lið Sonnenhof Grossaspach 4-0 í DFB-Pokal bikarnum.
Síðan Ten Hag tók við liðinu hafa margir lykilleikmenn verið seldir, þar á meðal Florian Wirtz og Jeremie Frimpong til Liverpool, og Granit Xhaka til Sunderland. Þá hafa Jonathan Tah og Lukas Hradecky einnig yfirgefið félagið.
Ten Hag sendi frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem hann segir meðal annars:
Yfirlýsing Ten Hag:
„Ákvörðun Bayer Leverkusen í morgun (Gær) um að setja mig í leyfi kom mér algjörlega í opna skjöldu. Að slíta samstarfi við þjálfara eftir aðeins tvo deildarleiki er einsdæmi.
Í sumar yfirgáfu margir lykilleikmenn félagið sem höfðu átt þátt í velgengni liðsins. Það að byggja upp nýjan og samstilltan hóp tekur tíma og krefst trausts.
Nýr þjálfari þarf svigrúm til að innleiða sína sýn, móta leikstílinn og setja sín viðmið. Ég hóf þetta starf með fullri trú og orku, en því miður var forysta félagsins ekki tilbúin að veita mér þá þolinmæði og það traust sem nauðsynlegt er, sem ég harma mjög.
Þetta var aldrei samband byggt á gagnkvæmu trausti. Á ferli mínum hef ég alltaf klárað tímabil og náð árangri með þeim liðum sem hafa treyst mér.
Að lokum vil ég þakka stuðningsmönnum Bayer Leverkusen fyrir hlýhug og ástríðu. Ég óska leikmönnum og starfsfólki félagsins velfarnaðar á yfirstandandi tímabili.“