Jamie Carragher hefur sett fram óhefðbundna kenningu um ástæður þess að Ruben Amorim hafi enn ekki verið rekinn úr starfi sem knattspyrnustjóri Manchester United — þrátt fyrir erfiða tíma.
Fyrrum leikmaður Liverpool heldur því fram að persónutöfrar, útgeislun og útlit Amorim haldi honum í starfi.
Í umræðuþætti The Overlap Fan Debate, sem framleiddur er í samstarfi við Sky Bet, sagði Carragher meðal annars: „Hann er frábær á blaðamannafundum en af því að hann er ekki að vinna leiki þá verður það pirrandi, það er eins og maður hugsi bara að hann eigi að þegja. Ef hann væri að vinna, værum við öll að segja: “Vá, hvað hann er með mikinn karakter“.“
Carragher benti jafnframt á að þrátt fyrir sterkan persónuleika og tilveru í fjölmiðlum þurfi árangurinn að fylgja.
„Það er mikið talað um að fá José Mourinho aftur í ensku knattspyrnuna, af því hann er karakter, hann er með læti og lætur mikið að sér kveða, en hann var líka sigurvegari.“
„Ég horfi á þetta núna og hugsa: Ef Amorim væri ekki svona heillandi á blaðamannafundum, ef hann væri ekki svona myndarlegur, þá væri hann kannski löngu farinn. Þegar maður skoðar úrslitin eru þau skelfileg“
Manchester United hefur átt í miklum vandræðum undir stjórn Ruben Amorim frá því að hann tók við í nóvember í fyrra.