Enska knattspyrnusambandið (FA) hefur hafið rannsókn á markverði kvennaliðs Liverpool, Rafaelu Borggrafe, vegna meintrar notkunar á rasísku orðbragði.
Borggrafe, 25 ára Þjóðverji sem gekk til liðs við Liverpool frá SC Freiburg í júlí, er sögð hafa notað óviðeigandi orðalag sem innihélt kynþáttafordóma á undirbúningstímabili liðsins, að sögn fjölmiðla á Englandi.
Í yfirlýsingu frá Liverpool segir: „Liverpool Football Club er meðvitað um meint brot leikmanns kvennaliðs félagsins þar sem talið er að hún hafi notað rasískt orðalag. Félagið hefur fylgt öllum sínum verkferlum í hvívetna og vísað málinu áfram til FA, sem nú rannsakar það með fullum stuðningi frá okkur.“
„Við fordæmum hvers kyns mismunun, hún á hvorki heima í fótbolta né samfélaginu. Við getum ekki tjáð okkur frekar að svo stöddu vegna rannsóknarinnar,“ segir í yfirlýsingu Liverpool.
Borggrafe var ekki með í fyrsta leik tímabilsins, Merseyside-slögnum gegn Everton á Anfield, og sagði þjálfari Liverpool, Gareth Taylor, að fjarvera hennar væri máls innan veggja félagsins.