Það sauð allt upp úr þegar grannaslagur Tindastóls og Kormáks/Hvatar fór fram í undanúrslitum Fótbolta.net bikarsins í kvöld. Gestirnir frá Blönduósi og Hvammstanga fengu þrjú rauð spjöld.
Leiknum var lýst í beinni textalýsingu á Fótbolta.net. Heimamenn í Tindastól leika í þriðju deild en Kormákur/Hvöt í deild fyrir ofan, heimamenn unnu 3-1 sigur.
Gestirnir fengu þrjú rauð spjöld frá Sveini Arnarsyni dómara leiksins. Eitt af rauðu spjöldunum fékk Dominic Louis Furness þjálfari Kormáks/Hvatar sem þjálfaði Tindastól á síðustu leiktíð. Mikill rígur er þarna á milli.
Í textalýsingu á Fótbolta.net segir að dómarar leiksins hafi þurft mikla gæslu í kringum sig eftir leik. „Gæslumenn hafa í nógu að snúast hérna… nokkrir af leikmönnum Kormáks/Hvatar gerðu atlögu að dómurunum. 9 gæslumenn fylgja dómurunum upp í hús,“ segir í textalýsingu sem Snæbjört Pálsdóttir var með á Fótbolta.net á leiknum.
Manuel Ferriol Martínez leikmaður Tindastóls skoraði öll þrjú mörk liðsins en samkvæmt textalýsingu Fótbolta.net fékk Goran Potkozarac leikmaður gestanna rautt spjald fyrir að taka í háls hans. Tindastóll mætir Gróttu eða Víkingi Ólafsvík í úrslitum.