Hjörvar Hafliðason, Dr. Football, varð hálf pirraður að horfa á sjónvarpið sitt í gær þegar ÍA vann 3-1 sigur á Aftureldingu í Bestu deild karla.
Ástæðan var sú að Dean Martin aðstoðarþjálfari ÍA var gólandi sí og æ allan leikinn. Hann reyndi að fjarstýra leikmönnum liðsins.
„Lárus Orri er yndislegur náungi, Dean Martin er það líka. Hann er óþolandi þarna á hliðarlínunni,“ sagði Hjörvar um málið í nýjasta hlaðvarpi sínu.
Hjörvar beið eftir því að einhver leikmaður ÍA myndi svara Dean. „Hann var að garga í eyrun á mér, ég beið eftir að einhver úr ÍA myndi sparka boltanum út af og fara að skiptast á höggunum.“
„Þeir voru svona upp í HK, Dean og Jói Kalli. Þeir æstu hvorn annan upp á hliðarlínunni, þetta er leiðinlegt og afturhvarf til fortíðar þessi PlayStation stjórnun.“
Gestir Hjörvars tóku undir þetta. „Þú ert hægri bakvörður og endar þar sem þjálfarinn er, þarft að hlusta á þetta gól,“ sagði Hjörvar að endingu.