Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, er vanur því að vanda orð sín, en það var augljóst að honum fannst Marc Guehi hafa orðið fyrir óréttlæti.
Guehi fór í læknisskoðun hjá Liverpool á lokadegi gluggans en Crystal Palace neitaði svo að selja hann.
„Þetta er leitt fyrir alla aðila,“ sagði Slot um stöðu enska landsliðsmannsins, sem var ekki valinn í nýjasta landsliðshóp Englands.
Hann bætti þó við: „En hann er á góðum stað hjá Crystal Palace, liðið vann bæði FA bikarinn og Samfélagsskjöldinn með mjög góðum þjálfara.“
Þegar talið barst að Alexander Isak sem gekk í raðir Liverpool á 125 milljónir punda frá Newcastle var Slot opinn fyrir spurningum. Margir vildu vita hversu mikið samband þeir hefðu haft hingað til, og svarið kom mörgum á óvart.
„Fólk trúir mér kannski ekki, en ég hef ekki talað mikið við hann,“ sagði Slot og brosti. „Þó það skipti miklu máli hvernig persóna einhver er, því við erum með frábæra menningu í klúbbnum. Þá kaupir maður fyrst og fremst leikmann út frá gæðum hans.“
Isak gæti leikið sinn fyrsta leik með Liverpool um helgina þegar liðið mætir Burnley í fjórðu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.