Axel Kári Vignisson lögfræðingur KSÍ fjallaði um stöðu mála varðandi byggingu skólaþorps í Laugardalnum á síðasta fundi stjórnar KSÍ.
Framkvæmdir á svæðinu eru í fullum gangi og enn sem stendur eru þær framkvæmdir innan þess svæðis sem er deiliskipulagt sem svæði fyrir leikskóla.
KSÍ segir að fá svör heyrist frá borginni. „Almennt eru einu samskiptin til KSÍ um verkið frá verktakanum sjálfum en ekki frá borginni. Þorvaldur formaður og Eysteinn framkvæmdastjóri eiga fund með borgarstjóra í vikunni og þá hefur einnig verið boðaður samráðsfundur hagaðila í Laugardalnum vegna þessa máls að frumkvæði ÍSÍ,“ segir í fundargerð KSÍ.
Í fundagerðinni er áhyggjum deilt um þessar byggingar sem eiga að koma á bílastæði fyrir framan Laugardalsvöll. „Verið er að þrengja að íþróttasvæði í Laugardalnum og fulltrúar íþróttahreyfingarinnar almennt farnir að hafa áhyggjur m.a. þar sem lítið hefur einnig gerst í málum þjóðarhallar. Fulltrúar KSÍ á fundinum verða Axel lögfræðingur, Eysteinn framkvæmdastjóri og Þorvaldur formaður..“